SMITVARNIR

Verjum íslenska dýrastofna - komum í veg fyrir að nýir og hættulegir dýrasjúkdómar berist til landsins

Hér er að finna upplýsingar og reglur um smitvarnir fyrir fólk sem er að koma til landsins, sótthreinsun á fatnaði og ýmsum búnaði og fleira. Upplýsingar um hvaða matvæli má hafa meðferðis, er að finna hér.


ALMENNIR FERÐAMENN
Hinn almenni borgari sem ferðast erlendis, er mikilvægur hlekkur í sjúkdómavörnum. Honum er treyst til að fara að settum reglum og gæta ítrustu varkárni við komuna til landsins. Erlendir ferðamenn eru velkomnir til Íslands, en við þurfum að gæta þess að þeir fari að okkar reglum.

Almennum ferðamönnum ber að varast að hafa með sér grófbotna skó eða stígvél eða annan búnað sem notaður er í tengslum við dýr, jarðveg eða vatn.

Komi almennur ferðamaður beint frá bóndabæ eða hafi haft eitthvað samneyti við dýr rétt fyrir komuna til landsins er honum óheimilt að koma í snertingu við alifugla, svín, nautgripi, sauðfé, hunda og ketti á Íslandi í a.m.k. 48 tíma frá því hann var á bóndabæ eða í umhverfi dýra erlendis.

Ferðist fólk um landbúnaðarsvæði skal setja öll föt sem notuð eru við heimsóknir í dýrahjarðir í plastpoka strax að lokinni notkun og þvo og hreinsa í fatahreinsun strax eftir heimkomu. Skófatnað þarf einnig að sótthreinsa, t.d. með Virkon S eða öðrum sambærilegum efnum, sem unnt er að fá hjá dýralæknum og verslunum sem selja vörur til landbúnaðarins. Klór er ekki virkt gegn öllum veirum s.s. gin- og klaufaveiki.

Efst á síðu


HESTAMENN
Vegna landfræðilegrar einangrunar, strangra reglna um innflutning og allmennrar vitundar almennings um sérstöðu íslenska hestsins hefur tekist að halda öllum alvarlegum smitsjúkdómum bæði frá hestinum og öðrum búfénaði í áratugi. Hestar eru ekki bólusettir á Íslandi og mjög viðkvæmir fyrir utanaðkomandi smitefnum.

Bannað er að koma með notuð reiðtygi og hestakerrur til Íslands.

Óheimilt er að flytja til landsins notaðan reiðfatnað sem ekki er unnt að þvo eða sótthreinsa á öruggan hátt, t.d. leðurhanska, -stígvél, -skó og -jakka, vaxjakka og -frakka og hjálma.

Sótthreinsun á öðrum reiðfatnaði
Notaðan reiðfatnað skal þvo í þvottavél eða þurrhreinsa fyrir komu til landsins, reiðstígvél og -skó skal sótthreinsa. Fatnað sem hefur verið notaður í tengslum við önnur dýr skal meðhöndla á sama hátt.

Vottorð um sótthreinsun (eyðublað) Pdf skjal (77 KB)
Opinbert vottorð um sótthreinsun frá útflutningslandinu er viðurkennt við komuna til Íslands. Það skal undirritað af opinberum dýralækni í útflutningslandinu.

Reiðstígvél og -skó skal sótthreinsa í 10 mínútur. Eftirfarandi sótthreinsiefni og lausnir eru viðurkenndar af yfirdýralækni

1. Virkon S (1% lausn)
2. Kaustískur sódi (0.2% lausn)
3. Kristallínskur sódi (5% lausn)
4. Setax (0,3% lausn)
5. Korsolin (3% lausn)
6. Formalin (2% formaldehíð lausn)
7. Fenól lausn (2-5% lausn)

Hægt að leita til Fagræstingar s.f sem starfrækir sótthreinsunarþjónustu á Keflavíkurflugvelli og sér um sótthreinsun á reiðstígvélum og -skóm.

Efst á síðuVEIÐIMENN
Vegna smithættu í ám og vötnum er bannað að nota veiðarfæri á Íslandi sem notuð hafa verið erlendis nema þau hafi verið sótthreinsuð á viðurkenndan hátt. Opinbert vottorð um sótthreinsun frá komulandi er viðurkennt við komuna til Íslands. Orðalag vottorðsins skal vera skýrt og það undirritað og stimplað.

Ísland hefur ávallt verið laust við smitsjúkdóma í fiskum s.s. IPN, VHS, IHN, UDN og ILA, sem hinar ýmsu veirur valda, einnig sníkjudýrasjúkdóma s.s. Gyrodactylosis. Þannig viljum við hafa það áfram. Með samvinnu tekst okkur að halda íslenskum laxi og silungi sjúkdómalausum.

Sótthreinsun veiðarfæra

Vottorð um sótthreinsun (eyðublað) Pdf skjal (77 KB)
Opinbert vottorð um sótthreinsun frá útflutningslandinu er viðurkennt við komuna til Íslands. Það skal undirritað af opinberum dýralækni í útflutningslandinu.

Eftirfarandi sótthreinsiefni og lausnir eru viðurkenndar af yfirdýralækni

1. Virkon S (1% lausn)
2. Kaustískur sódi (0.2% lausn)
3. Kristallínskur sódi (5% lausn)
4. Setax (0,3% lausn)
5. Korsolin (3% lausn)
6. Formalin (2% formaldehíð lausn)
7. Fenól lausn (2-5% lausn)

Ef veiðarfæri hafa ekki verið sótthreinsuð fyrir komuna til landsins er hægt að leita til Fagræstingar s.f sem starfrækir sótthreinsunarþjónustu á Keflavíkurflugvelli

Reglur um sótthreinsun veiðarfæra á ensku.

Efst á síðu


BÆNDUR
Á síðari árum hafa skipulagðar bændaferðir til útlanda færst í vöxt. Í slíkum ferðum er yfirleitt farið í heimsóknir á bóndabæi eða landbúnaðarsýningar þar sem dýr eru sýnd. Ekki er vitað til þess að sjúkdómar hafi borist til landsins í kjölfar þessara ferða og má þar eflaust þakka árvekni ferðalanga og fararstjóra þeirra.

Bændur og forráðamenn dýra!
Verjið dýrin og bæinn ykkar. Enginn getur varið hann betur en þið sjálf og enginn ber meiri ábyrgð á því. Hleypið engum sem er að koma erlendis frá inn í fjósið, fjárhúsið, svínahúsið, hesthúsið, alifuglahúsið, kanínuhúsið, refa- eða minkahúsið o.s.frv. nema þeim sem þangað eiga lögmætt erindi og gætið þess að viðkomandi sýni smitgát. Verið sjálfir góð fyrirmynd.

Efst á síðu


FÓLK SEM KEMUR TIL STARFA Í LANDBÚNAÐI OG MATVÆLAVINNSLU
Á síðari árum hafa hefur það færst mjög í vöxt að erlent verkafólk komi til starfa á bændabýlum, hjá hestamönnum, sláturhúsum og kjötvinnslum svo eitthvað sé nefnt, um lengri eða skemmri tíma. Vitað er að sjúkdómar (salmonella) hafi borist til landsins með slíkum starfskrafti.

Sjálfsagt er og eðlilegt að verkafólk sem ræðst til vinnu á bóndabæ, hestaræktunarbúi, sláturhúsi, kjötvinnslu o.s.frv. fari í læknisskoðun þar sem gerðar eru rannsóknir með tilliti til smitsjúkdóma.

Fatnaður
Verkafólk og starfsfólk í matvælavinnslu (t.d. í sláturhúsum og kjötvinnslum) skal varast að hafa með sér grófbotna skó eða stígvél eða annan búnað sem notaður er í tengslum við dýr, jarðveg eða vatn.

Komi verkafólk eða starfsfólk í matvælavinnslu beint úr gripahúsi eða umhverfi búfjár rétt fyrir komuna til landsins er því óheimilt að koma í snertingu við íslensk dýr í a.m.k. 48 tíma frá því að farið er úr gripahúsi eða umhverfi búfjár erlendis.

Ferðist fólk um landbúnaðarsvæði skal setja öll föt sem notuð eru við heimsóknir í dýrahjarðir í plastpoka strax að lokinni notkun og þvo og hreinsa í fatahreinsun strax eftir komu til landsins. Skófatnað þarf einnig að sótthreinsa, t.d. með Virkon S eða öðrum sambærilegum efnum, sem unnt er að fá hjá dýralæknum og verslunum sem selja vörur til
landbúnaðarins. Klór er ekki virkt gegn öllum veirum s.s. gin- og klaufaveiki.

Efst á síðu


FERÐAÞJÓNUSTUAÐILAR
Á síðari árum hefur það færst mjög í vöxt að ferðamenn komi í fjós, á bændabýli, til hestamanna og nýti sér ferðaþjónustu bænda um lengri eða skemmri tíma.
Ekki er vitað til þess að sjúkdómar hafi borist til landsins í kjölfar þessara heimsókna og má það eflaust þakka árvekni fólks og fararstjóra þeirra þegar um skipulagðar ferðir er að ræða.

Fatnaður
Gestir skulu varast að hafa með sér grófbotna skó eða stígvél eða annan búnað sem notaður er í tengslum við dýr, jarðveg eða vatn.

Komi gestir beint úr gripahúsi eða umhverfi búfjár rétt fyrir komuna til landsins er því óheimilt að koma í snertingu við íslensk dýr í a.m.k. 48 tíma frá því að farið er úr gripahúsi eða umhverfi búfjár erlendis.

Ferðist fólk um landbúnaðarsvæði skal setja öll föt sem notuð eru við heimsóknir í dýrahjarðir í plastpoka strax að lokinni notkun og þvo og hreinsa í fatahreinsun strax eftir heimkomu. Skófatnað þarf einnig að sótthreinsa, t.d. með Virkon S eða öðrum sambærilegum efnum, sem unnt er að fá hjá dýralæknum og verslunum sem selja landbúnaðarvörur. Klór er ekki virkt gegn öllum veirum s.s. gin- og klaufaveiki.

Allir gestir skulu klæðast hreinum utanyfirfötum, annað hvort einnota eða fatnaði búsins.
Stígvél skulu vera hrein, líka undir sólanum. Annars skal nota skóhlífar.

Sótthreinsandi skóbað við inngöngu í gripahús er góð smitvörn.
Bannað er að fóðra dýr á matarleifum! Umbúðum innfluttra matvæla skal eyða á öruggan hátt.

Setjið upp viðvörunarskilti á áberandi stöðum til að vekja fólk til umhugsunar.

Efst á síðu


FARÞEGAR MEÐ SKIPUM
Margir bráðsmitandi dýrasjúkdómar berast auðveldlega með lifandi dýrum, dýraafurðum svo sem hráu kjöti og mjólk, fólki og fatnaði. Óhreinir bílar og önnur faratæki geta einnig borið smit.

Það er því mikilvægt að allir sem koma til Íslands gæti fyllstu varúðar til að koma í veg fyrir að smit berist til landsins. Yfirdýralæknir hvetur alla ferðamenn sem koma erlendis frá að virða eftirfarandi varúðarráðstafanir:

1. ALGERLEGA er bannað að flytja hrátt kjöt og mjólkurafurðir til Íslands. Kjöt og mjólkurafurðir verða að vera greinilega merkt "FULLY COOKED/STERILIZED" eða "PASTEURIZED/MADE FOM PASTEURIZED MILK", eða sambærilegt á öðrum tungumálum. Ef matvæli eru í bifreiðum eða farangri skal þeim framvísað við tollgæslu.

2. Einungis hrein föt og skófatnaður sem ekki hefur verið notaður á bændabýlum eða í nánum tengslum við dýr, ætti að taka með sér og nota á Íslandi.

3. Einungis hreinar bifreiðar og önnur farartæki ætti að taka til Íslands. Ef farartæki eru óhrein við komuna til Íslands, verða þau þrifin og sótthreinsuð á kostnað eiganda.

4. Bannað er að flytja til Íslands farartæki sem notuð hafa verið til dýraflutninga.

5. Bannað er að flytja lifandi dýr til Íslands.

6. Forðast skal snertingu við dýr fyrstu 2 dagana eftir komuna til Íslands.

Vinsamlegast athugið að við komuna til Íslands fara fram nauðsynlegar varúðarráðstafanir svo sem skoðun og leit í farangri og e.t.v. sótthreinsun farartækja. Þetta getur tekið tíma og haft kostnað í för með sér (sjá 3. lið).

Þessi texti á ensku
Þessi texti á norsku

Efst á síðu


VERKLAGSREGLUR TIL VARNAR SMITSJÚKDÓMUM VEGNA MÓTTÖKU Á SORPI FRÁ ERLENDUM SKIPUM

1. Allt sorp skal vera í heilum plastpokum (sorppokum).

2. Sorppokum er raðað í "stórsekki" um borð í skipunum.

3. Stórsekkjum er hlaðið í lokaða flutningagáma og ekið beint á viðurkenndann urðunarstað, sem hefur starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

4. Flutningagámar skulu vera vökvaheldir.

5. Á urðunarstað skulu stórsekkir huldir strax með jarðvegi eða á annan hátt til varnar aðgengi vargfugls og meindýra að innihaldi þeirra.

6. Að lokinni tæmingu flutningatækis skal það sótthreinsað með Virkon S eða öðru viðurkenndu sótthreinsiefni á losunarstað.

7. Flutningsaðili skal halda skrá yfir flutninga á sorpi og öðrum úrgangi frá erlendum skipum. Þar skal koma fram nafn skipsins og uppruni, dagsetning, förgunarstaður og vottun starfsmanns um fullkomna förgun úrgangsins og sótthreinsun og þrif á gámi.

8. Ofangreindar verklagsreglur um flutning, flutningatæki og sótthreinsun eiga einnig við þar sem sorpi er brennt í viðurkenndum sorpbrennslustöðvum.

Efst á síðu